Skoða

50 ára brúðkaupsafmæli

Nú er 50 ára brúðkaupsafmæli í vændum, ekki hjá mér nei!

Amma mín og afi eru búin að vera gift í 50 ár núna á morgun, 30. desember.  Ef það er ekki tilefni til að gera fallega köku þá veit ég ekki hvenær er tilefni.

Ég og mútta mín erum  búnar að vera að stússa í eldhúsinu, þessi líka fallega hjartalega kaka er nánast tilbúin til að láta skreyta sig. Við ætlum sko að nostra við þessa.

Bökuðum tvo þykka hjartalaga svampbotna.  Finnst þessi uppskrift alltaf svo góð. Vel hægt að nota uppskriftina til að gera rjómatertu fyrir áramótin eða annað tilefni. Einmitt það skemmtilega við kökurnar, alltaf hægt að aðlaga hugmyndirnar að sér.

Stóðst ekki mátið að gefa ykkur uppskriftina, kannski einhver sem vill notfæra sér hana fyrir áramótin.

Svampbotn (Stórt hjarta)

8 stk egg

350 g sykur

150 g hveiti

150 g kartöflumjöl

2 tsk lyftiduft

Aðferð: Egg og sykur þeytt vel saman og  þurrefnunum blandað varlega saman við eggjahræruna. Sett í hjartalagað form eða ofnskúffu eða  í form eftir því hvaða lögun á að vera á kökunni. Má baka í einu lagi þarf þá að vera aðeins legur í ofninum eða setja í 2 form. Bakað við 175°C í 20 – 25 mín.

 

Fylling:

1 ½ l rjómi alls + auk c.a. 2 dl til að hylja kökuna

240 g Dumle karamellur

1 dós perur

20 makrónur  keyptar í pokum út í næstu matvörubúð

4 kókosbollur

Aðferð:

Kvöldið áður þarf að  bræða Dumle karamellur í  ½ l af rjóma við vægan hita og má alls ekki koma upp suða. Þetta er kælt yfir nótt..  Þetta er þeytt í hrærivél þar til það er orðið eins og þeyttur rjómi. Passa vel upp að þeyta ekki of lengi því þá getur hræran orðið að smjöri. Þessu er blandað varlega saman við ½ l af þeyttum rjóma.

Samsetning kökunnar: 

Botn og ofan á hann er settur safi úr perudósinni ekki allan safann og passa upp á að setja ekki alveg út á brúnirnar. Perurnar brytjaðar yfir. Makrónur muldar yfir og ½ l þeyttur rjómi settur yfir. Kókosbollurnar skornar niður og dreift yfir rjómann. Dumlerjómablandan sett þar yfir og efri botninn settur ofan á. Ef rjómablandan er of mikil á milli má nota afganginn til þess að hylja kökuna. Ef það dugar ekki þá þarf að þeyta c.a 2 dl  af rjóma í viðbót til að hylja kökuna. Það þarf minna af öllu ef kakan er minni.  Kakan hulin með sykurmassa og skreytt.

Nú er bara að vinda sér í sykurmassann, hann liggur hérna tilbúinn við hliðina á mér og býður þess að ég skelli honum á blómamunsturmottuna, máli sig gullfallegan í takt við gullbrúðkaupið með gull perlumálningu. Skreytingarnar koma síðan í ljós í næstu færslu.

Nú er glatt á hjalla skal ég segja ykkur og mikil spenna í loftinu, fyrir skreytingum og verð nú að viðurkenna að ég hlakka mikið til að gæða mér á þessari gómsætu köku.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Related Posts