Um daginn gerðum við nokkrar skemmtilegar hugmyndir fyrir tímaritið Vikuna. Hér er ein þeirra, æðisleg uppskrift að gamaldags vínarbrauði. Þessi voru fljót að hverfa í munninn á fólkinu í kringum mig.
Uppskrift:
250 g smjörlíki
250 g sykur
500 g hveiti
2 stk egg
2 tsk lyftiduft
kanilsykur
Glassúr
100 g flórsykur
1 tsk smjör – brætt
½ tsk vanilludropar
2 ¼ tsk vatn
½ msk síróp
½ msk kakó – sleppa ef gera á bleikt krem og setja bleikan matarlit í staðinn.
Aðferð:
Allt sett í skál og hnoðað vel saman. Nota auka hveiti þegar deigið er flatt út undir og yfir. Deigið er síðan flatt út og skorið í c.a. 13 cm breiðar lengjur. Hvor hlið er síðan lögð inn að miðju. Gott að hafa smá bil á milli. Sett á bökunarpappír á bökunarplötu og bakað við 175°C í 12 – 15 mín. Gott að hafa glassúrinn tilbúinn áður en vínarbrauðin bakast. Glassúrinn settur í miðjuna á vínarbrauðunum strax þegar þau koma úr ofninum og skorin í bita um leið og búið er að setja glassúrinn á. Kælt. Geymt á köldum stað en mjög gott að frysta.