Það er alveg magnað og merkilegt hvað tíminn líður –
Í dag eru 5 ár síðan mömmur.is leit fyrst dagsins ljós.
Óvissar um framtíð síðunnar í upphafi, héldum við ótrauðar áfram og áður en við vissum af var fullt af fólki sem sýndi síðunni áhuga.
Á þessum tíma var lítið um kökuskreytingarblogg og fannst fólki því gaman að fylgjast með og gaman að prófa sig áfram. Þetta átti síðan aldeilis eftir að breytast og margar flottar kökusíður komu í kjölfarið.
Óhætt er að segja að sykurmassagerðin hafi strax vakið áhuga fólks en fyrir 5 árum voru ekki margir sem skreyttu með honum. Nú þykir sykurmassakaka hvers manns prýði í afmælisveislum landans.
Markmið síðunnar var að hvetja fólk áfram í að gera sjálft sínar afmæliskökur og finnst okkur það hafa heppnast ótrúlega vel.
Heimasíðan hefur svo sannarlega skapað okkur mörg tækifærin og erum við ykkur óendanlega þakklátar fyrir áhorfið og tryggðina við okkur.
Námskeiðshald í Hagkaup, netþættir með Siggalund.is, hugmyndavinna fyrir tímarit og nú samstarf Hjördísar við Betty Crocker er óneitanlega það sem stendur uppúr. Við erum sko hvergi hættar og spennandi tímar framundan.
Takk fyrir að fylgjast með okkur þessi 5 ár.
Fengum einn lítinn 6 ára snáða til að aðstoða okkur við piparkökugerð en hann hefur fylgt okkur í bakstrinum frá 1 árs aldri. Eitt af því skemmtilegasta sem hann gerir er að fá að taka þátt í bakstrinum. Þetta varð útkoman.
Uppskriftin sem varð fyrir valinu er þessi – algjört æði og svo einföld í framkvæmd.
Piparkökufígúrur
200 g smjör
200 g púðursykur
2 dl Síróp
1/5 tsk engifer
2 msk kanill
1/2 tsk negull
1 msk natron
1 stórt egg
1/2 tsk lyftiduft
700 -750 g Kornax hveiti
Aðferð: Allt sett í pott nema egg og hveiti. Hitað og hrært stöðugt í þar til suðan kemur upp. Potturinn tekinn af hellunni og egg og hveiti sett út í. Deigið er hnoðað upp og flatt út. Að lokum eru skornar út piparkökur með mótum.
Fígúrurnar eru bakaðar í 10-12 mínútur við 180°C hita