Fermingin er stór stund í lífi fólks. Um þessar mundir eru margir í fermingarkökuhugleiðingum. Fólk er að velta ýmsu fyrir sér sem tengist fermingarveislunni. Ég er sjálf að fara að ferma svo ég er mikið að spá í þessa hluti.
Hlutum eins og:
Er veislan haldin í sal eða heima – salurinn er oft pantaður 1 ári áður en þó ekki algilt
Hvernig veitingar á að hafa – Kökuveisla, smáréttir, hamborgaraveisla, kjötveisla, súpa, allt í bland …
Hvað eru margir á gestalistanum.
Boðskortið
Skreytingar
Hvaða lit eða liti verður ríkjandi í veislunni (skreytingum og kökum)
Einnig er fólk að velta fyrir sér kostnaðinum og gerir áætlun hvað það varðar.
Fólk er að velta fyrir sér hvernig það getur gert kökuna sjálft, hvað henti best og hvernig það eigi að fara að.
Fyrst er að velja kökubotninn og það sem á að vera á milli. Mín reynsla er sú að það hittir alltaf í mark að leyfa fermingarkrökkunum að velja þá köku sem þeim finnst best. Oftar en ekki verður súkkulaðiaka fyrir valinu. Rjómaterta með t.d. jarðarberjarjóma á milli er líka mjög vinsæl.
Elska þessa fyllingu, eitthvað sem allir borða.
Útlitið á kökunni skiptir líka miklu máli og gaman að tengja hana við áhugamál barnsins, þar eru möguleikarnir óendanlegir.
Ef þú ert að gera veislutertu að þessari stærðargráðu í fyrsta skipti hefur mér fundist best að notast við einfaldleikann, baka ofnskúffustærð af botnum, smyrja þá með smjörkremi eða rjóma og setja sykurmassa yfir. Hægt að kaupa tilbúinn sykurmassa t.d. í Hagkaup eða búa hann til sjálfur. Til að gera kökuna sparilegri er mjög einföld leið að nota munsturmottu, þær geta gert gæfumuninn.
Þegar búið er að setja yfir kökuna eru margir sem vilja setja perluduft, sprey eða perlumálningu yfir til að setja punktinn yfir i-ið. Algjör snilld.
Síðan er það skrautið. Mín reynsla er að fólk velur oftast blóm eða fiðrildi. þessi mót henta við öll tilefni og hægt að nota aftur og aftur. Fótboltamót og stafamót hitta líka í mark.
Þeir sem vilja ganga skrefinu lengra skera út kökuna og móta hana eins og hentar eiga að láta vaða.
Hér eru nokkrar hugmyndir að stelpulegum kökum sem við höfum gert.
Finnst alltaf voða sætt að gera fígúrur sem passa fermingarbarninu.
Fótboltakökur eru alltaf vinsælar bæði fyrir stráka og stelpur.
Hér er kaka fyrir stelpu sem hefur tvö áhugamál, fótbolta og fimleika.
Einföld en smart tölvukaka
Það er um að gera að skoða hugmyndir á netinu, á þessari síðu er sérstakur fermingarvefur með fullt af hugmyndum. Endilega kíkja á það.