Yndislegur mánuður sem nóvember er. Mér hefur lengi þótt nóvembermánuður svo heillandi, frostið, kyrrðin, jólaljósin og svo ég tala nú um jólabaksturinn sem fer í hönd.
Ég ólst upp við mikinn bakstur en móðir mín var ansi iðin á því sviðinu. Í byrjun nóvember var byrjað að baka hverja sortina á fætur annarri og var gossið geymt á vísum stað þar til á aðventunni. Man nú alveg eftir því að hafa stolist í dósirnar, svo gott og yndislegur tími þegar ég hugsa til baka.
Nú er kökublað Vikunnar komið út og nú finnst mér jólin nálgast. Finnst fastur liður í jólaundirbúningnum að fletta blaðinu yfir og prófa mig áfram með uppskriftirnar í blaðinu.
Fyrir mörgum árum þegar ég var ung og áhugasöm stúlka um bakstur var ég alltaf fyrst út í búð til að tryggja mér eintak. Blöðin á ég öll og nota þau jafnt og þétt yfir árið, alltaf jafn gaman að skoða þau yfir og prófa uppskriftirnar. Á þessum tíma hefði nú ekki hvarlað að mér að ég ætti eftir að eiga kökuþátt í blaðinu. Hlutirnir eru fljótir að breytast og síðustu fjögur ár höfum við hjá mömmur.is lagt okkar af mörkum við efni blaðsins Að þessu sinni erum við með flottan kökuþátt sem inniheldur 8 blaðsíður af fjöldanum öllum af alls kyns góðgæti. Blaðið er einstaklega fallegt í ár og stútfullt af flottum hugmyndum frá flottu fólki héðan og þaðan.
Ég er komin með blaðið í hendurnar og nú finnst mér jólin vera að koma…