Hver myndi slá hendinni á móti þessari frýnilegu grýluköku!
Það þarf að baka 1 1/2 ofnskúffu af súkkulaðiköku ásamt tveimur skálum fyrir brjóst. Þá er súkkulaðikakan bökuð í eldföstum skálum. Grýla er teiknuð upp á smjörpappír og klippt út. Kakan er skorin út og brjóst, haka og nef hækkuð upp með súkkulaðiköku. Kakan er skorin í tvennt og smurð með smjökremi á milli og utan um kökuna. Sléttið vel úr smjörkreminu. Andlitslitaður sykurmassi er settur yfir alla kökuna. Brúnar geirvörtur eru skornar út, hvítar pífur á kjólinn og rauður kjóllinn settur á kökuna. Hárið er búið til úr gráum og svörtum lengjum, sykurmassabyssan kæmi sér vel við gerð hárlokkana. Lokkarnir eru síðan snúnir til að fá krullur í þá. Lokkarnir eru festir með sykurmassalími. Grár klútur er settur yfir höfuðið, augu og munnur búinn til. Vörtur eru settar á hökuna og nefið og veiðigirni klippt til til að líkja eftir hári. Það getur verið skemmtilegt að skreyta bakkann með t.d. litlum hjörtum en þau er hægt að gera með hjartaformi.
Þessi kaka er nú meira upp á grínið heldur en hitt! Var notuð við tilefni þar sem gleði og grín var ríkjandi. Kakan vakti mikla lukku.