Ég var svo heppin að fá að gera fermingartertu fyrir fermingu dóttur vinkonu minnar. Þemað var bleikt, hvítt og gull og kakan átti að vera á nokkrum hæðum.
Stílhreinar skreytingar voru valdar í bland við sykurmassafígúru og nokkrar tegundir af blómum. Útkoman féll í kramið hjá fermingarstelpunni og passaði hún vel við skreytingar og annað sem boðið var upp á.
Kakan samanstendur af súkkulaðitertu, smjörkremi og sykurmassa.
Kakan kom vel út á veisluborðinu. Prinsessustíll yfir henni og finnst mér perlurnar gera mikið ásamt sykurmassanum með munstrinu.
Þegar kakan á að vera á nokkrum hæðum er fínt að hafa í huga að gera ráð fyrir platta undir efstu botnunum og festa þá með kökupriki (sem stungið er í gegnum botnana til að halda þeim).
Perluborðinn er búinn til með sérstöku sílikonmóti, gulláferðin fæst með gulldufti.
Það er svo gaman að gera sykurmassafígúrur, tekur reyndar sinn tíma en með æfingunni styttist tíminn. Ég reyni alltaf að hafa stytturnar í stíl við barnið sem á að fá kökuna, s.s. sami háralitur, auglitur o.s.frv. Styttan geymist vel svo það er hægt að varðveita hana eftir að kakan er búin.
Ég læt fylgja myndir af fallegum bollakökum sem ég gerði einnig fyrir ferminguna. Ótrúlegt hvað litlar sætar bollakökur gera mikið.