“Keep calm and have a Cupcake”
Á mánudagsmorgni mæti ég grunlaus í vinnuna þegar ég rek augun í fallegar bollakökuservíettur á kennaraborðinu mínu.
Nemendur mínir eru jafn uppnumdir yfir þessari leynigjöf og ég og sögðu mér að leyndur aðdáandi hafi komið gjöfinni þarna fyrir. Ég var voðalega ánægð þar sem svona atburðir gerast nú ekki á hverjum degi.
Fljótlega átta ég mig á því að yndisleg samstarfskona mín var að færa mér þessa gjöf, rakst á þessar servíettur í blómabúð í Reykjavík og varð hugsað til mín. Vá, hvað ég var glöð í hjarta mínu ekki bara yfir gjöfinni heldur yfir þessari góðhjörtuðu samstarfskonu.
Nokkrum dögum síðar hitti ég á göngum skólans aðra samstarfskonu mína. Já, það er sko fullt af kennslukonum á göngum skólans. Hún stoppar mig og segir mér að hún sé með smá gjöf handa mér. Hún var nýkomin frá ameríkunni og hafði rekist á þessa bók út í búð þar. Um leið og hún sá bókin sagði hún við manninn sinn: Á hvern minnir þig þessi bók? Hjördísi og þar með var það ákveðið og bókin keypt. Gleðin skein úr andliti hennar þegar hún afhenti mér bleiku, litla, fallegu bókina sem innihélt heilræðri um bollakökur. Ég stóð á gati yfir allri þessari góðmennsku og hugulsemi og var svo þakklát fyrir að til væri fólk sem lét hjartað ráð för, léti sér annt um aðra og gaf af sér. Yndislegt ekki satt?
Þessa vikuna hugsaði ég mikið um bollakökur. Mikið langaði mig til að þakka fyrir mig, var ekki tilvalið að gera nokkrar bollakökur fyrir þær?
Uppskriftin og hugmyndin sem ég gef ykkur hér er tilkomin vegna þessara yndislegu kvenna.
Sæt súkkulaði bollköka
Nýbúin að fá þessa yndislegu bók, fannst tilvalið að nota uppskrift úr henni. Bókin heitir Saved by Cake eftir marian Keyes. Bókin er yndisleg í einu orði sagt. Í innganginum segir höfundur hvernig hún hjálpaði sjálfri sér að lina sársaukann sem fylgdi þunglyndi hennar. Hún segist hafa bakað sig frá þunglyndinu. Magnað hvað kökubakstur getur gert.
Uppskriftin fyrir ca. 12 kökur
100 g hveiti
20 g kakó (ég notaði lífrænt ræktað kakó frá green and balck’s, kom mjög vel út)
1 1/2 tsk lyftiduft
140 g sykur
50 g smjör
120 g nýmjólk
1 egg
1/2 tsk vanilludropar
100 g mjólkursúkkulaði (ég stalst til að nota dökka súkkulaðibita, guðdómlegt)
Krem:
100 g 70% Nóa Siríus súkkulaði
55 g smjör, skorið í bita
255 g flórsykur
65 ml nýmjólk (ég stalst til að nota rjóma, ummm það var svo gott)
1/2 tsk vanilludropar.
Aðferð:
Ofninn hitaður að 170 gráðum
1. Hveiti, lyftiduft, kakó, sykur og smjör er blandað vel saman þar til smjörið er alveg komið saman við blönduna. Mjög gott að vera í einnota hönskum og kremja hráefnið milli handanna þar til allt er orðið blandað saman. Líka hægt að nota hrærivélina.
2. Í annari skál er mjólkinni, eggjunum og vanilludropnunum hrært vel saman.
3. Mjólkurblöndunni og hveitiblöndunni er síðan blandað saman ásamt súkkulaðibitunum.
4. Blöndunni komið fyrir í fallegum bollakökumótum, fínt að nota ísskeið til að hafa allt jafnt.
5. Bakað í ca. 20 mínútur við 170 gráður.
Kremið:
Súkkulaði og smjör er brætt saman yfir vatnsbaði. Hrært stöðugt í. tekið af hellunni og hellt saman við flórsykurinn, mjólkinni og vanilludropunum.
Ef kremið er of lint er gott ráð að leyfa því að bíða í ca. 20 mínútur í ísskápnum.
Varúð: Þessar bollakökur rjúka út 🙂
Finnst ómissandi að vera með ísskeið þegar ég er að setja deigið í formin.
Ég er ótrúlega skotin í þessum fiðrildamótum, koma í mörgum litum og svo eru þau svo sterk og góð. Hægt að kaupa þau í Hagkaup eða á mömmur.is.
Ég skreytti bollakökurnar og færði þessum tveimur yndislegu samstarfskonum mínum. Ég vona að þær hafi glatt þær, veit að kökurnar voru unaðslegar á bragðið.
Önnur var pottþétt Borghildur, var það ekki 🙂