Skoða

Piparkökuhúsadrottning Íslands

Valdís Einarsdóttir

Það er óhætt að segja að Valdís Einarsdóttir sé ein þeirra sem hægt er að útnefna Piparkökuhúsadrottningu Íslands en hún hefur undanfarin 15 ár tekið þátt í piparkökuhúsaleik Kötlu með góðum árangri. Húsin hennar hafa unnið til margra verðlauna í þessari vinsælu keppni. Síðustu ár hefur hún verið með hús til sýnis á keppninni sjálfri í sérstökum heiðursflokki.

Við heimsóttum Valdísi á dögunum og má með sanni segja að  á móti okkur hafi tekið sannkallaður ævintýraheimur piparkökuhúsanna. Þegar maður sér öll þessi fallegu hús fellur maður í stafi og finnst í raun ótrúlegt að hægt sé að gera eins nákvæm hús og raun ber vitni.

Húsin byggja öll á svipuðum grunni með mismunandi útfærslun  á hönnun og skreytingum. Tæknin við gerð piparkökuhúsanna hefur þróast með hverju húsinu sem hún gerir og má sjá þróun þegar myndirnar eru skoðaðar og bornar saman.

Piparkökuhús á þeirri stærðargráðu sem Valdís hefur hannað krefjast mikillar nákvæmni, næmt auga fyrir hlutföll, útsjóarsemi og hæfileikum.

Hönnun, samsetning og skreytingar húsanna taka hana frá 1-2 mánuðum og er hún því oftar en ekki búin að skipuleggja með góðum fyrirvara hvernig hús hún ætlar að gera.

Fyrst þarf að finna fyrirmynd að húsi eða byggingu, taka myndir en Valdís á skrautlegar sögur frá ferðum sínum í kringum hin ýmsu hús og áður en farið er af stað í piparkökuhúsagerðina sjálfa þarf að gera pappalíkan að húsinu en út frá þeim eru skapalónin fyrir piparkökuhlutana gerð.  Þá fyrst hefst piparkökubakstur, samsetningar og skreytingar.

Húsin standa öll á tréplötu sem síðan er þakin með piparkökuplötum. Húsin eru síðan fest á plötuna.  Til að hafa lýsingu inn í húsinu hefur Valdís látið koma fyrir ljósaperu með t.d. 15 watta ljósaperu en skemmtileg lýsing kemur í húsin með þessu.

Fyrirmynd húsanna sem verður fyrir valinu hverju sinni  er oft í tengslum við þann tíðaranda sem á sér stað á hverjum tíma.  Einnig ræður fagurleiki og saga hússins för.

Það var áhugavert að hlusta á Valdísi segja okkur frá húsunum og á hvert hús sitt sögu og nefnir hún húsin eftir barna- og barnabarnabörnum sínum.

Valdísi hefur tekist að varðveita nokkur húsanna sem hún hefur gert en við fengum leyfi hennar til að taka mynd af húsunum og fjalla um þau á þessum vef.  Hvert hús mun fá sína umfjöllun á þessum vef og er það von okkar að þið hafið sömu ánægju og við hjá mömmur.is að skoða þessi virðulegu hús.

1 comment
Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Related Posts