Um helgina fór fram bollakökukeppnin Fröken Reykjavík. Keppnin er haldin í tengslum við hátíðina Full borg matar en í ár var hátíðin haldin í fyrsta sinn .
Mér hlotnaðist sá heiður að fá að vera ein af þremur dómurum í keppninni en engin önnur en Bollakökudrottningin: Friðrika Hjördís Greisdóttir eða Rikka var formaður dómnefndar. Hafliði Ragnasson súkkulaðimeistari, Mosfellsbakaríi var einnig að dæma með okkur. Ég mæli með að þið kíkið á heimsíðuna hans en þar er hægt að kaupa unaðslegt súkkulaði.
Bollakökurnar streymdu inn en alls bárust 20 gerðir af bollakökum í keppnina. Kökurnar voru hver annarri flottari og fjölbreytileikinn mikill.
Það er greinilegt að margir hafa unun af því að skreyta fallega köku. Dómarastörfin voru skemmtileg en vægast sagt ekki auðveld viðureignar en dæma þurfti eftir útliti og bragði kökunnar.
Fröken Reykjavík 2011 var að þessu sinni Kanilbomba en hún þótti skara framúr hvað bragð varðar. Ég get vottað það hér að kakan var rosalega bragðgóð. Við í dómnefnd lýstum henni sem fremur hlédrægri í fyrstu en við nánari kynni leynist þar þokkafull og silkimjúk kanilbomba!
Sigurvegarinn, Thelma Þorbergsdóttir á heiðurinn af uppskriftinni en hún hefur verið að skreyta bollakökur og kökur um nokkurt skeið. Hér kemur uppskriftin hennar Thelmu.
Kanilbomba
Uppskrift fyrir ca. 15 stk
125 gr smjör brætt
200 g sykur
170 gr hveiti
1 tsk vanilludropar
2 stór egg
2 tsk lyftiduft
Smá dass af salti
120 ml mjólk
1 cup púðursykur (dökkbrúni) blandað með 1.5 tsk kanil, þetta er hrært saman.
(ef þú vilt hafa kökuna extra blauta er gott að setja vanillubúðing bara innihaldið í pakkanum út í kökudeigið)
Þeir sem vilja fara einfalda leið þá er hægt að kaupa yellow cake mix og blanda það saman við
3 egg
1 cup vatn
126gr smjör brætt
Ofninn hitaður í 180 gráður
Aðferð:
Hrærið saman sykrinum og eggjunum vel saman þangað til blandan verður mjúk og fín. Blandið hveiti, lyftidufti og salti í skál og hrærið saman við, bæti því saman við ásamt mjólkinni, vanilludropunum og brædda smjörlíkinu hræra vel á milli. Hrærið svo á miklum hraða í ca. 2 mín.
Setjið deigið í ca 1/4 af muffins forminu. Setjið svo 1 tsk af kanil/púðursykrinum ofan í og setjið svo aðra skeið af deiginu yfir, setjið aftur 1 tsk af kanil/púðursykri yfir (reyndu að fylla muffins mótið ekki meira en 2/3) takið hníf og hringsnúið honum í gegnum deigið til þess að blanda saman deiginu og kanil/púðursykrinum.
Bakið í ca 15 mín. Kælið.
Krem
(ef þú vilt hafa mikið krem gerið þá tvöfalt)
225 gr rjómaostur, mjúkur
125gr smjör, við stofuhita best að hafa það aðeins mjúkt
1 tsk vanilludropar
3 cups flórsykur
Blandið saman rjómaosti, smjöri og vanilludropum þangað til það er orðið mjúkt og fínt. Setjið því næst flórsykur, hafið hrærivélina stillta á minnsta hraðann og bætið smám saman út í, hrærið vel á milli. Skafið hliðarnar á hrærivélaskálinni vel og hrærið á miklum hraða í ca. 2 mín.
Setjið kremið á bollkökurnar og setjið inn í ísskáp þangað til kanil/púðursykursgljáinn er tilbúinn.
Gljái:
125gr smjör
1cup púðursykur
1.5 tsk kanill
Aðferð:
Setjið smjörið, púðursykurinn og kanilinn í lítinn pott yfir meðal hita og bræðið saman. Passið að má ekki fara að sjóða upp á blöndunni. Setjið 1 tsk eða eins og þú vilt yfir cupcakes og setjið strax inn í ísskáp þangað til gljáinn hefur náð að storkna.
Fyrir keppnina setti Thelma síðan Hershey’s súkkulaðispænir ofan á en það koma mjög vel út.
Hér fyrir neðan koma myndir frá keppninni sjálfri en þar má sjá fullt af girnilegum og mjög vel skreyttum kökum.
Glæsilegt bollakökuborð
Spennandi dómarastörf en þarna má sjá Hafliða og Rikku smakka eina tegundina.
Thelma Þorbergsdóttir með Fröken Reykjavík
Svakalega gaman að sjá allar þessar flottu kökur, það hlítur að hafa verið erfitt að dæma þetta. Hver önnur flottari.