Það var ærið verkefnið sem beið okkar í mömmur.is þegar við vorum beðnar um að gera Lord of the Rings fermingarköku. Alltaf gaman að fá krefjandi kökur til að skreyta.
Tek það fram að baksturinn, hönnunin og vinna við þessa köku tók um 15 klukkutíma svo gefið ykkur góðan tíma þegar vinna á kökuna. Mjög gott að gera öll smáatriðin nokkrum dögum áður.
Oft er maður að fínisera kökuna á lokamínútunum til að fullkomna verkið.
Fengum hugmyndir og óskir fermingardrengsins og útkoman var þessi skemmtilega kaka. Hef sjaldan séð eins ánægt barn fá kökuna sína. Þá finnst mér markmiðinu náð!
Grunnur kökunnar er í sjálfum sér mjög einfaldur. Tvær ofnskúffustærðir af súkkulaðiköku, smjörkrem á milli og sykurmassi settur yfir. Grunnurinn var málaður með silfurlitaðri perlumálningu. Silfurliturinn passaði vel við þemað.
Það voru smáatriðin sem ullu okkur mesta höfuðverknum til að byrja með en með því að skoða ljósmyndir, horfa á myndina og pæla aðeins í sjálfri myndinni þá var eftirleikurinn auðveldari.
Þessi kakan er að okkar mati eins sú skemmtilegasta sem við höfum gert.
Það er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná ákveðinni mynd á sykurmassa. Sumir myndu láta prenta hana á sykurmassann, aðrir taka myndina í gegn og þrykkja á massann og síðan enn aðrir sem mála þetta fríhendis. Ég ákvað að prófa aðferð sem ég lærði fyrir nokkru. Þá hvolfir maður myndinni límir hana á t.d. glugga, setur smjörpappír yfir og tekur í gegn. Myndin er síðan annað hvort þrykkt á massann eða “útlínurnar teiknaðar á massann” Þá notar maður blýant sem býr til strikin (þó ekki teiknað á massann heldur aðeins ofan á pappírinn).
Hér er kortið tilbúið. Lítur vel út svona í glugganum.
Ég valdi tilbúinn ljósbrúnan sykurmassa og hóf síðan að búa til línur.
Nú eru komnar útlínur sem hægt er að ganga út frá. Það sem ekki náðist eða var óskýrt þurfti ég að mála eftir auganu.
Kortið heppnaðist býsna vel – þó ég segi sjálf frá. Blá perlumálning var notuð fyrir hafið, svartur matartúss til að skerpa á útlínum og sérstök matarlitamálning var notuð til að lita fjöll, skóg, stafi o.s.frv.
Þá er það bókin sjálf. Gerir oft mikið að setja litla köku ofan á stærri köku. Bókin hentaði vel til þess. Lítil kaka er skorin til og gerð í laginu eins og bók, smjörkremi smurt yfir hana og hvítur sykurmassi settur yfir.
Hér er búið að skera kökuna til og móta líkt og bók
Hvítur sykurmassi settur yfir kökuna og henni hvolft, þannig lekur kremið ekki á milli þegar bókakápan kemur utan um. Tilbúinn hertur sykurmassi er notaður til að búa til bókarkápu.
Gerði renndur í bókina og málaði síðan blaðsíðurnar með gull perlumálningu eða perludufti. Stafirnir eru gerðir með pacthwork og FMM stöfum.
Hringurinn er eitt af þeim atriðum sem urðu að vera á kökunni þar sem hann spilar stórt hlutverk í sögunni. Hertur sykurmassi var notaður, hann mótaður og síðan skrifaði ég eftir auganu textann á hringinn. Ég notaði fyrst matartússlit og setti síðan svarta matarlitamálningu ofan í til að skerpa litinn. Ég var með textann á blaði fyrir framan mig þegar ég gerði þetta. Auðveldara en ég hélt og koma líka svona agalega “smækó” út.
Ákvað að lita hringinn eftir þar sem oft getur reynst erfitt að skrifa á t.d. perlumálningu.
Perlumálningin kemur vel út þegar mála á skartgripi.
Passa þarf upp á að leyfa málningunni að þorna áður en farið er að lita ofan í stafina.
Perlumálningin er eitthvað sem á heima í tösku kökuskreytarans. Málninguna er hægt að nota beint upp úr dósinni eða setja í airbrushtæki. Algjört æði, elsk ‘ana.
Þegar búið er að setja perlumálninguna á hringinn er málningunni leyft að þorna og síðan er svartur matartússpenni notaður til að gera stafina greinilegri. Á myndinni hér að ofan er ekki búið að fara yfir með svörtum túss en á myndinni fyrir neðan er búið að gera það.
Hvað átti nú að standa á kökunni? Var það trúarjátningin eða… Nei, Drengurinn var alveg með það á hreinu. Hann vildi hafa textann sem er inni í hringnum þýddan yfir á ensku. Auðvitað uðrum við við þeirri ósk. Notuðum hvítan tilbúinn sykurmassa frá Karen Davies og Fmm skrautskriftastafi til að skera út. Kom mjög vel út og passaði við þema kökunnar.
Þá er komið að sverðinu, sykurmassaskraut sem sett var á bakkann við kökuna. Alltaf svo gaman að fara út fyrir rammann á kökunni og bæta hlut sem passar þemanu. Fyrirmynd sverðsins er sverð Sam’s í Lord Of The Rings en það er einmitt ein af uppáhalds persónum fermingardrengsins.
Þegar verið er að gera sykurmassahluti í stærra laginu er best að gera þá nokkrum dögum áður. Nota sugarpaste sem harðnar eða sykuramassa að viðbættu tylosedufti (fæst í Hagkaup). Algjör snilld að geta átt möguleika á að gera hvað sem mann dettur í hug með þessusnilldarefni.
Lítið kökukefli notað til að fletja út massann og síðan hentar pítsuskerinn vel til að skera út stærri hluti. Skoðuðum myndir á netinu til að vera öruggar hvernig skera ætti sverðið. Oft er gott að gera form úr bökunarpappa til að hafa öll hlutföll rétt.
Nú byrjar ballið, finna réttu efnina á sveriðið. SK Dökkt silfurlitað duft var tilvalið sem grunnur. Alkahól notað til að leysa betur upp duftið (það gufar upp svo engin ástæða að hafa áhyggjur) með alkahólinu er meira flæði í litnum og skemmtilegri gljái kemur á sverðið.
Gott að hafa tölvuna opna til að fá réttu litina á sverðið og að munstrið sé svipað.
Svört matarlitamálning er algjör snilld, svo sterkur og fallegur litur sem kemur af henni. Ekki verra að það má neyta massans sem hún er sett á. Ef Squires Kitchen er ekki með betri vörum sem ég hef kynnst þá veit ég ekki hvað. Mæli með að fleiri opni augun og prófi þessar snilldar vörur. Allt löglegt og hráefnið hágæða.
Hér má sjá hvað sveðrið gerir miki fyrir heildarútlit kökunnar. Stafirnir eru mótaðir með Patchwork skerum, æðisleg stafagerð. Þegar hér er komið var að okkar mati útlit kökunnar lokið en eins og svo oft þá dreymdi mig kökuna um nóttina og fékk fleiri hugmyndir til að bæta við. Mig dreymdi trén í myndinni og sá þau fyrir með á hverju horni. Þvílík snilld að fá svona hugmyndir upp úr þurru í draumi 🙂
Ég notaði tilbúinn brúnan Fígúrsykurmassa frá Squires Kitchen og mótaði tréð. Notaði hvítan massa fyrir augun og litaði síðan svart með málningu. Lauflböðin og skrautið á kökunni er gert með sílikonmótum og máluð með gull perlumálningu.
Fígúran var gerð 30 mínútum fyrir veisluna fannst eitthvað vanta á bókina svo ég skellti í eina fígúru. Fígururnar er þó best að gera nokkrum dögum áður þannig harðnar massinn og auðveldrara að móta og vinna hana. Þemalitur fermingarinnar var fjólublár svo strákurinn var settur í fjólublá föt.
Fermingardrengurinn var svo ánægður með kökuna fannst hún flottasta kaka sem hann hafði séð, ekki stóð á áhuganum þegar verið var að taka myndir. Hann gati ekki augum litið af kökunni.
Hér má sjá lokaútkomuna. Erum mjög ánægðar með útkomuna enda langt verk að baki.
En gaman að sjá hvernig kakan varð til svona skref fyrir skref!
Flottasta kaka sem ég hef séð, enda hugsað fyrir hverju einasta smáatriði. Kakan fékk nánast meiri athygli í veislunni heldur en fermingarbarnið sjálft, hehe. Allavega voru teknar ófáar myndir af henni!
Þúsund þakkir fyrir þetta, þið eruð algjörir snillingar.
Kv. móðir fermingarbarnsins 😉