Prinsessukökur eru alltaf jafn heillandi.
Það eru til ýmsar útfærslur og þarf hver og einn að finna þá sem þeim líkar best. Ef afmælisbarnið er t.d. dökkhært er sniðugt að hafa hárið í þeim lit. Einnig er hægt að klæða prinsessuna í föt í uppáhaldslit afmælisbarnsins. Þannig verður prinsessan persónulegri.
Prinsessan er mótuð úr einni ofnskúffu af súkkulaðiköku. Teiknið prinessuna upp á smjörpappír og skerið hana síðan út. Það þarf að nýta ofnskúffuna vel og þá er betra að skera kökuna út í tvennu lagi. Ef lyfta á kjólnum upp hjá bringunni eru afgangar af súkkuklaðikökunni notaðir. Til að búa til fallegan háls og höku er gott að bæta smá af súkkulaðiköku á hökuna og skera varlega með hnífi hjá hálsinum. Þannig verður kakan líkari alvöru prinsessu. Nefið er einnig mótað með smá súkkulaðiköku. Smyrjið smjörkremi yfir kökuna og sléttið vel. Fletjið andlitslitaðan sykurmassa og leggið yfir andlitið og bringuna. Kjóllinn er síðan búinn til með bleikum sykurmassa. Andlitið er mótað og hárið búið til úr rúlluðum lengjum. Að lokum er kóróna sett á kökuna. Það er bæði hægt að nota leikfangakórónu eða búa hana til úr sykurmassa.