Skoða

Barbie kaka

Þessi unga skvísa hafði aldeilis skoðanir á hvernig köku hún vildi fyrir 4ra ára afmælið sitt enda alin upp innan um kökurnar okkar í mömmur.is.

Mamma ég vil  fá Barbie köku, hún á að vera blá, gul og smá bleik. Dúkkan á að vera með dökkt hár. Þegar við afhentum henni kökuna þá starði hún í smá stund á hana og ætlaði síðan að fara að leika sér við hana. Fattaði síðan að þetta væri kaka!

Þetta er hefðbundin Barbie kaka og hafa svipaðar kökur sést í áratugi hér á Íslandi.  Ég sjálf gleymi ekki afmæli sem ég fór í fyrir um 20 árum (vá, hvað ég er orðin gömu) hjá bekkjarsystur minni en þá var falleg bleik kaka líkt og þessi  á veisluborðinu.  Sú kaka var reyndar dippuð með smjökremi en ég man hvað mér fannst hún rosalega flott.

Dúkku bökunarmót frá Wilton var notað til að móta kökuna og barbiedúkku stungið í miðjuna á kökunni. Það er hægt að kaupa slíka dúkku hér en einnig hægt að nota sína dúkku. Kosturinn við dúkkurnar sem eru sérstaklega ætlaðar í þessar kökur er sá að þær eru ekki með fætur heldur er einungis efri hlutinn og prik í miðjunni til að stinga í kökuna.

Ef maður á ekki svona mót er hægt að ger líkt og í þessari hugmynd að baka nokkrar stærðir af botnum og raða saman með smjörkremi  á milli. Þannig sparar maður sér formið.

Kakan er skorin í sundur þvert yfir á nokkrum stöðum og smjörkrem sett á milli. Kakan er að lokum smurð með smjörkremi en þannig festist sykurmassinn betur.

Skref fyrir skref:

Smjörkrem sett á milli og utan um kökuna en þannig helst sykurmassinn betur.

Í þessa hugmynd fer tvöföld uppskrift af hvítum sykurmassa (2 Haribo pokar og 2 Dan Sukker fllórsykur og 5 msk vatn) Lítil hvítur bútur er skorinn í þá stærð sem þarf. Búið til munstur með litlu  musturkefli en það kemur rosalega vel út. Massinn er síðan litaður með gulri perlumálningu sem borin er á með sérstökum svampi.  Mæli með að þú prófir perlumálninguna en það er mjög gaman að leika sér með hana, ekki skemmir fyrir hvað kemur vel út.

Hvítur sykurmassi er flattur út á sykurmassamottu og settur yfir kökuna. Passa að setja ekki yfir gula flötinn. Krumpurnar þarf að gera sjálfur með því að ýta undir sykurmassann og toga í hann. Gott að hafa sykurmassann frekar þykkan til að geta átt meira við hann.

Sykurmassinn er spreyjaður með bláu perluspreyi en það er eitt af uppáhalds efnunum mínum, fæst í mörgum litum.

Bleiki borðinn meðfram sykurmassanum gerir mikið fyrir kökuna en hann er búinn til með patchwork hjartaskera. Borðinn er skorinn til, litaður með bleikri perlumálningu og bleiku glimmeri sáldrað yfir. Borðinn er síðan festur með sykurmassalími.

Ég elska sílkonmót bæði þar sem þau flýta mikið fyrir og svo koma þau svo eðlilega út. Slaufan er því gerð með sílikonmótinu og lituð með perlumálningu eins og borðinn. Alltaf falleg að sáldra smá glimmeri yfir.

Hér er kakan án þess að vera með blómum á kjólnum en þannig verður kakan stílhrein og falleg.

Sykurmassablómin eru gerð með þessu snilldar sílikonmóti en kostur við þetta mót er að það er hægt að gera mörg blóm í einu og öll blómin koma rosalega vel út. Ég málaði blómin með gulri perlumálningu og sáldraði gulu stradust glimmeri yfir þau. Blómin eru fest með sykurmassalími.

Rosalega ánægð með útkomuna, stílhrein og falleg barbiekaka.

 

2 comments
Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Related Posts